Færsluflokkur: Garðyrkja

Eins konar sumarfrí

Undanfarnar 3 vikur hef ég verið að "afspadsere", en það er vegna þess að maður fær ekki borgaða yfirvinnu í Danmörku. Þegar maður hefur safnað of mörgum yfirvinnutímum, er maður sendur í frí, og ég var komin með 200 tíma. Ég fæ svo 3ja vikna sumarfrí í ágúst að auki.

Danir eiga ekki að vinna yfirvinnu, það slítur þeim of mikið út. Þar að auki hefur verið atvinnuleysi í landinu, og það er litið svo á, að ef fólk vinnur yfirvinnu, þá taka þeir vinnu frá atvinnulausum. Þetta hefur mér alltaf fundist mjög óréttlátt, ég vil mikið heldur fá þessa yfirvinnutíma borgaða út.

Nú, ég fór í sumarhúsið í nokkra daga, en þar var allt of heitt. Aðeins hægt að vinna í garðinum á morgnana og á kvöldin. Ég fór því að dunda mér við að búa til lavendel vendi, en þeir eru frábærir í skúffurnar - það kemur svo góð lykt.

Lavendel vendir 001

Nú er aftur á móti farið að rigna, sem er ágætt fyrir gróðurinn.


Garðurinn í júní

Ég var að vinna í garðinum í gær. Það er alveg ótrúlegt hvað allt vex hratt í augnablikinu, þrátt fyrir að það var hitabylgja í vor í 6 vikur, 30 stiga hiti og engin rigning. Maður hefur varla við að viðhalda blómabeðunum. Svo er bannað að vökva, því það þarf að spara vatnið. Ég er nú samt að stelast til að vökva sumarblómin á kvöldin, þau þola ekki svona þurrka.

Ég elska ber, svo ég er með jarðarber, ribsber, græn og blá vínber, amerísk bláber, brómber, hindber og tytteber. Jarðarberin eru byrjuð að verða fullþroska, svo nú keppist ég við fuglana að ná þeim. Skrýtið að það er ekki eins mikið af bláberjum og í fyrra. Af hverju ætli það stafi? Það er líka minna af eplum en í fyrra, en meira af perum. Undarlegt.

Ég uppgötvaði 5 "dræbersnegle" - þeir fyrstu í ár. Ég hef fundið fullt af skógarsniglum og venjulegum kuðungasniglum, sem eru líka ógeðslegir. Sniglarnir eru óvinir mínir númer eitt. Þeir fá allir að láta lífið. Nú þarf ég að byrja sniglaveiðar á kvöldin með vasljós, eins og allir hinir. Öll önnur dýr eru velkomin á lóðina mína. Það búa íkornar í gamla grenitrénu, líka skógardúfur og ýmsir smáfuglar. Broddgeltirnir eru mjög velkomnir, þeir éta unga snigla og eru bráðnauðsynlegir í garðinum, svo ég gef þeim vatn að drekka daglega.

Furutréð á lóð nágranna míns hefur kastað svo mörgum könglum í rokinu um daginn, að ég fyllti 2 stóra plastapoka. Þetta eru fallegir furukönglar, það er eiginlega synd að henda þeim. Kannske er einhver sem getur notað þá, ef til vill einhver frístundaklúbbur eða slíkt. Það er tilvalið að nota þá í jólaskreytingar. Ég þarf að athuga það.

Ég var að ákveða að skreppa til Madeira í viku eða svo. Það er jú blómaeyja og ég hef ekki verið þar áður. Það hlýtur að vera fullt af sjaldgæfum plöntum þar, og möguleiki á að kaupa fræ. Ég er þegar farin að hlakka til.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband