8 ÁRA HELDUR RÆÐU - og fólk nær ekki upp í nefið á sér vegna ofstækis og fordóma

Sjaldan hef ég heyrt jafn marga, opinbera fordóma sína og skinhelgi.

Börnin eru líka þjóðin, ekki satt! Heldur fólk, að það sé hægt að vernda börn fyrir upplýsingum í upplýsingaþjóðfélagi? Heldur fólk, að börn hafi enga greind og geti ekki myndað sér skoðanir? Heldur fólk, að börn þessa lands verði ekki vör við kreppuna og allt krepputalið? Á sumum heimilum á fólk ekki fyrir mat, á öðrum heimilum eru foreldrarnir búnir að missa vinnuna. Heldur fólk, að það sé hægt að pakka börnunum inn í bómull og vernda þau fyrir raunveruleikanum?

Stúlkan sem um ræðir, Dagný Dimmblá, er bróðurdóttir mín. Bráðskír, ófeimin og fylgin sér. Hún ákvað sjálf á sínum tíma, að búa til sitt mótmælaspjald, því hún vildi mótmæla á Austurvelli. Hún fór með pabba sínum á nokkra mótmælafundi, þessir fundir eru afar fjölskylduvænir svo ekki sé meira sagt: Fólk á öllum aldri, frá ungum börnum í barnavögnum upp í háaldrað fólk, og allt fer friðsamlega fram. Á einum fundinum fór hún til Harðar Torfasonar og bað um leyfi til þess að ávarpa næsta fund, því henni fannst vanta upp á að raddir barna heyrðust þarna líka.

Pabba hennar leist ekkert á þessa hugmynd til að byrja með, og vildi í fyrstu ekki samþykkja þetta (hann sá fyrir ofstækisfull viðbrögð fordómafulls fólks, það gekk líka eftir). Hann lét þó undan henni að lokum, mest vegna þess að það eru mannréttindi barna að fá að tjá sig.

Hún skrifaði ræðuna sjálf, pabbi hennar hjálpaði henni að hreinskrifa og þetta var alls ekki æft heima. Að hún hafi verið heilaþvegin eða fjölskyldan hafi att henni út í þetta er algjör fjarstæða. Allir sem þekkja Dagný Dimmblá vita það mæta vel. Henni varð heldur ekkert meint af atburðinum. Hún hefði getað átt mjög góða minningu um þetta: Hún hélt ræðu, sem hún skrifaði sjálf og hún stóð sig vel og fólk klappaði.

Nei, það má hún ekki. Það þarf að eyðileggja upplifunina og snúa þessu upp í ofstæki og einelti. Henni hefur orðið meint af viðbrögðum ykkar bloggara við þessu. Eitrið sem vellur út úr sumum pennum hérna á moggablogginu, meðal annars, er til háborinnar skammar. Fjölskylda mín er kölluð kommúnistar! (ég hélt að þeir væru allir dauðir með kalda stríðinu!) Það á að senda barnaverndarnefnd á okkur! Við erum ásökuð um barnaníðslu og heilaþvott! Svo ég nefni lítið brot af þeim svívirðingum sem velta út úr bloggurum þessa síðustu daga. Dagný litla þorir varla út úr húsi og hefur átt erfitt með svefn síðustu daga. Hún verður sennilega líka að skipta um skóla vegna þessa. Þetta er á ykkar ábyrgð.

Þið bloggarar standið ykkur vel í því að brjóta niður unga sál, undir því yfirskini, að þið séuð að vernda barnið og berið hag þess fyrir brjósti. Mig langar að kasta upp. Þjóðin er greinilega ekki bara gjaldþrota í peningum, hún er líka að tapa vitinu að mínu mati, og svona skrif eru ekki greindu fólki sæmandi á neinn hátt. Þau sýna aftur á móti gjaldþrot andans og umburðarlyndisins.

Hér er ræða hennar í heild:

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sylvía

sjálfsagt að börn láti í sér heyra

Sylvía , 7.1.2009 kl. 12:38

2 Smámynd: Sigríður Hulda Richardsdóttir

Grétar, velkomið að setja þetta á þína síðu.

Sigríður Hulda Richardsdóttir, 7.1.2009 kl. 12:44

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Ég held að þú ættir að lesa betur færsluna mína og reyndar fleiri færslur um þetta mál.  Eg þvert á móti er að verja Dagnýju.  Með bestu kveðjum Ásthildur.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.1.2009 kl. 13:52

4 identicon

Sæl,

Þetta er greinilega bráðgreind stúlka og langt á undan í sínum þroska. Ég verð þó að koma nokkrum hlutum á framfæri og þá er ég ekki á nokkurn hátt að sakast við hana Dagnýju.

1. Moggabloggarar eru upp til hópa alveg beljandi þroskaheftir. Það kom mér því ekkert á óvart að hún Dagný skyldi verða fyrir miklum árásum.

2. Það ætti að vera öllum ljóst, þ.á.m. foreldrum stúlkunnar, að fólk á eftir að bregðast við með þessum hætti, sbr. 1. punktinn um eðli moggabloggara.

3. Það er m.a. hlutverk foreldra að sjá til þess að börn komi sér ekki í aðstæður sem þessar. Við leyfum börnum ekki að fara að berjast í Gaza vegna þess að þau vilja fara í byssó og á sama hátt ætti þeim ekki að vera leyft að fara inn í hringiðu pólitískrar styrjaldar.

Af ofangreindu hef ég dregið þá ályktun að það hafi verið afar slæm ákvörðun að leyfa henni að flytja ræðuna, miðað við áhrifin sem þú segir að það hafi á hana.

Gummi (IP-tala skráð) 7.1.2009 kl. 21:28

5 Smámynd: Sigríður Hulda Richardsdóttir

Já, það má segja að það hafi komið okkur á óvart hvað fólk er grimmt. Svo út frá því var þetta röng ákvörðun.

Aftur á móti er það réttur barna að fá að tjá sig, svo það var rétt ákvörðun að leyfa henni það.

Þjóðin er greinilega í mjög slæmu andlegu ástandi um þessar mundir, miðað við fordómafull viðbrögð fólks.

Sigríður Hulda Richardsdóttir, 8.1.2009 kl. 10:21

6 Smámynd: Hólmdís Hjartardóttir

Sum skrifin hér á blogginu voru einmitt skemmandi fyrir barnið.  Hvernig dettur fullorðnu fólki í hug að vera með flennifyrirsagnir um hversu vont það væri fyrir barnið að fá að tala í nokkrar mínútur?

Hólmdís Hjartardóttir, 8.1.2009 kl. 10:35

7 Smámynd: Ragnhildur Jónsdóttir

Svei mér þá ég held að landinu sé borgið ef þessi stúlka er merki um það sem koma skal ! Hún á framtíð fyrir sér og kannski bara táknrænt að það sé reynt að stoppa hana strax.....  "fall er faraheill" var sagt þegar ég ólst upp. Haldu bara áfram að tjá þínar skoðanir Dagný Dimmblá, ég náttúrulega þekki þig ekki neitt frekar en aðrir sem kommenta um allt bloggið en mér líst vel á þig og þitt málefnalega og kröftuga tal, þú gefur von fyrir framtíðina.

Bestu kveðjur og ljós til ykkar

Ragnhildur Jónsdóttir, 8.1.2009 kl. 13:44

8 Smámynd: Offari

Það er kraftur í þessari stúlku. Ég bið að heilsa pabba hennar.

Offari, 9.1.2009 kl. 08:32

9 Smámynd: Heidi Strand

Dagný stóð sig frábærlega vel og var sér og sinum til sóma.
Ég hugsaði með mér að kannski verður hún fyrsta kvenkyns forsætisráðherra landsins.

Heidi Strand, 9.1.2009 kl. 15:45

10 Smámynd: Sigríður Hulda Richardsdóttir

Ég þakka ykkur innleggin - og skila kveðju til þeirra

Sigríður Hulda Richardsdóttir, 11.1.2009 kl. 12:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband